Follow the Vikings

Follow the Vikings er Evrópuverkefni sem Samtök um söguferðaþjónustu eiga aðild að. Verkefnistími er fjögur ár en það hófst 1. júlí 2015 og stendur til 30. júní 2019.

Alls eru 15 fullgildir þátttakendur í verkefninu frá 8 löndum. Þar á meðal eru SSF sem eru eini íslenski þátttakandinn. Auk þess eru 10 með aukaaðild (associated partners). Alls mun verkefnið því ná til aðila í 13 löndum. Allir eru þeir félagar í samtökunum Destination Viking Association (DVA) sem stofnuð voru árið 2007 og eru nú með um 45 félaga frá 15 löndum. DVA hefur frá árinu 2012 haft umsjón með  Viking Heritage Route í Evrópu í umboði Evrópuráðsins (Council of Europe). SSF eru stofnaðili að DVA og hefur Rögnvaldur Guðmundsson setið í stjórn þar frá upphafi.

Heimasíða verkefnisins þar sem hægt er að lesa meira um það en kemur hér fram er: http://www.destinationviking.com/projects/follow-the-vikings/background

Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 570 m.kr. eða 3.920.000 evrur. Styrkur úr Creative Europe Programme er upp á 50% af samþykktum kostnaði, þ.e. 1.960.000 evrur. Hlutur SSF í því er 137.700 evrur (20 m.kr.) gegn jafnháu framlagi frá SSF í formi vinnu og óbeins kostnaðar sem deilist á fjögur ár. Mestur hluti heildarstyrksins fer í stjórnun verkefnisins, sameiginleg verkefni á sviði kynningar, markaðssetningar og útgáfu, ferðir og uppihald á námskeiðum og fundum en rennur ekki beint til aðilanna.

Um verkefnið
Höfuðmarkmiðið er að gera hinn fjölþjóðlega víkingaarf aðgengilegan og auðskilinn fyrir fólk hvaðanæva að úr heiminum. Kynning á arfleifð víkinganna á að styðja við það að Evrópa haldi forystusæti sínu á heimsvísu sem menningaráfangastaður. Verkefnið tengir saman aðila sem starfa að menningu er varðar varðveislu, kynningu og markaðssetningu á víkingaarfinum um alla Evrópu og víðar. Innan verkefnisins eiga aðilar að deila þekkingu og reynslu og búa til kynningarefni og vörur þvert á lönd en með rætur í víkingaarfleifðinni. Stefnt er að því að fjölga gestum á bæði þekktum og minna þekktum minjastöðum, söfnum og áfangastöðum sem tengjast sögu víkinganna. Jafnframt á verkefnið að stuðla að auknum áhuga á heimi víkinganna út fyrir samstarfið, á verkmenningunni, sagnalistinni, rituðum heimildum o.s.frv.

Nokkrir meginþættir í verkefninu:
Að þróa aðferðir til að ná til nýrra gesta/notenda, t.d. með nýtingu nýrrar tækni eins og samfélagsmiðla, vefsins og smáforrita.
Að bæta gerð viðskiptaáætlana, t.d. með miðlun reynslu (best-practice) og ráðgjöf sérfræðinga.
Að styrkja the Viking Heritage Route of Europe og tengslanet þeirra sem sinna þessu tímabili (staðir, stofnanir, sérfræðingar o.fl.), m.a. með því að rýna í hvernig hægt sé að bæta upplifun gesta við miðlun víkingaarfsins.
Að koma á fót fjölþjóðlegum kynningarhópi (roadshow) sem ferðast milli landa og tekur þátt í alls 13 víkingahátiðum/viðburðum um alla Evrópu á verkefnistímanum í þeim tilgangi að vekja áhuga á víkingum. Gert er ráð fyrir að jafnaði verði 12 manns í hópnum en 30-40 manns komi til með að taka þátt í honum á tímabilinu.

Stjórnun verkefnisins og ábyrgð SSF
Shetland Amenity Trust leiðir verkefnið („lead partner“) og heldur utan um framkvæmd þess og fjármál. Á Hjaltlandseyjum verður framkvæmdastjóri verkefnisins í fullu starfi og hlutastörf í fjármálum og ráðgjöf. Hverjum verkhluta stýrir síðan einn þeirra sem er með fulla aðild og er ábyrgur fyrir framkvæmd hans. Samtök um söguferðaþjónustu verkstýra þeim hluta sem snýr að kynningarmálum (Visiting the Vikings – WP4), að því að halda utan um og láta gera kynningarefni, s.s. ljósmyndir, myndbönd, teiknimyndabók og fræðsluefni eftir ráðstefnur. Rekstraráætlun fyrir þann hluta hljóðar upp á 428.000 evrur (62 m.kr.) sem SSF ber ábyrgð á að framkvæmt verði fyrir í samstarfi við aðra aðila að verkefninu.
Formaður SSF, Rögnvaldur Guðmundsson, situr jafnframt í stjórn verkefnisins og sækir alla stjórnarfundi.

Þátttaka félaga Samtaka um söguferðaþjónustu
Innan SSF eru fjölmargir aðilar sem vinna með víkingatímann, sem í þessu verkefni er skilgreindur fram til 1300. Samtökin geta sent 2 fulltrúa með styrk auk fulltrúa í stjórn verkefnisins á þær ráðstefnur og viðburði sem skipulagðir hafa verið. Ferðastyrkur til þeirra einstaklinga er 800-1000 evrur. Reynt verður að velja til þátttöku fulltrúa sem geta miðlað af reynslu sinni í þeim málefnum sem tekin eru fyrir hverju sinni. Aðrir sem hafa áhuga á að fara á ráðstefnurnar geta einnig skráð sig og mætt á eigin kostnað. Þar fyrir utan er reiknað með að íslenskir fyrirlesarar verði á einhverjum ráðstefnum. Jafnframt er æskilegt að einhverjir Íslendingar taki þátt í „roadshow“ teyminu sem sett verður saman í verkefninu.
Tveir viðburðir eru áætlaðir á Íslandi. Annars vegar ráðstefna kringum 13.-15. sept. 2017 og síðan mun „roadshow“ hópurinn koma og taka þátt í viðburði 2018.
Það sem gerir þátttöku í þessu verkefni sérlega áhugaverða er að þarna tekur þátt fjöldi aðila víðsvegar frá Evrópu og einnig frá Kanada sem miðla reynslu sinni. Þetta er því tækifæri fyrir SSF-félaga bæði til að læra og miðla.
Þeir félagar SSF sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu eru beðnir um að setja sig í samband við Rögnvald (rognvaldur@rrf.is) eða Skúla Björn (skuli@skriduklaustur.is).