Samtök um söguferðaþjónustu (SSF) voru stofnuð að Þingeyrum í Húnavatnssýslu í maí 2006. Í samtökunum eru nú um 80 aðilar um allt land og voru þau stofnuð í kjölfar þátttöku sjö þeirra í Evrópuverkefninu Destination Viking – Sagalands (2003-2005). Þar voru einnig þátttakendur frá Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Orkneyjum, Hjaltlandseyjum, Mön og Nýfundnalandi. Sá samvinnuhugur sem þar ríkti hefur skilað sér yfir í nýstofnuð samtök en helsta markmið þeirra er að vera samvinnu- og samráðsvettvangur þeirra er stunda sögutengda ferðaþjónustu á Íslandi. Auk þess er markmiðið að auka samvinnu í kynningarmálum, gæðamálum og stuðla að aukinni fagmennsku. Ákveðið var að samtökin skuli í fyrstu leggja áherslu á arfleifð íslenskra miðaldabókmennta, fyrstu aldir Íslandsbyggðar og miðaldamenningu, þ.e. tímabilið frá landnámi og fram siðaskiptum 1550. Árið 2014 voru samtökin opnuð fyrir öllum aðilum í söguferðaþjónustu, óháð tímabilum, með það að markmiði að verða heildarsamtök þeirra aðila, opinberra sem einka, er vinna að þessari tegund ferðaþjónustu um land allt.