Samþykktir

1. gr. Samtökin heita Samtök um söguferðaþjónustu. Heimili þeirra og
varnarþing fylgir heimili formanns hverju sinni.

2. gr. Markmið samtakanna er að efla söguferðaþjónustu á Íslandi og að vera samráðsvettvangur þeirra aðila er stunda slíka ferðaþjónustu, hvort sem það eru opinberir aðilar eða einkaaðilar. Með söguferðaþjónustu er átt við ferðaþjónustu sem leggur áherslu á að miðla til ferðamanna íslenskum miðaldabókmenntum, sögu þjóðarinnar frá fortíð til samtíðar og hverskyns menningararfleifð.

Markmiði sínu hyggjast samtökin ná með því að:
• mynda tengslanet milli aðila í samtökunum
• miðla þekkingu innan samtakanna
• standa að sameiginlegri kynningu og markaðssetningu
• stuðla að fagmennsku í söguferðaþjónustu
• stuðla að samstarfi við aðila sem vinna að sambærilegum málum innanlands og utan.

3. gr. Félög, stofnanir, opinberir aðilar og fyrirtæki sem koma að sögutengdri
ferðaþjónustu geta orðið fullgildir aðilar að samtökunum. Einstaklingar o.fl. geta
einnig sótt um aukaaðild að samtökunum. Fyrir aukaaðild greiðist hálft árgjald en
henni fylgir aðeins málfrelsi og tillöguréttur á félags- og aðalfundum. Ósk um
aðild skal komið á framfæri við stjórn samtakanna og lögð fyrir aðalfund eða
næsta félagsfund til samþykktar eða synjunar.

4. gr. Félagsfundir skulu haldnir eftir ákvörðun stjórnar hverju sinni og skulu þeir
boðaðir með skriflegu fundarboði í síðasta lagi 10 dögum fyrir fundardag.
Félagsfundir eru lögmætir sé löglega til þeirra boðað.
Félagsfundur skal haldinn óski þriðjungur fullgildra félagsmanna þess.
Á félagsfundum fer hver fullgildur aðili að samtökunum með eitt atkvæði. Í
upphafi félagsfunda skal framvísa skriflegum umboðum um það hver fer með
atkvæðisréttinn. Aðrir þeir er sitja félagsfundi á vegum aðila að samtökunum hafa
málfrelsi og tillögurétt. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á félagsfundum.

5. gr. Aðalfundur samtakanna hefur æðsta vald í málefnum þeirra. Skal aðalfundur
haldinn í síðasta lagi 30. júní ár hvert. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til
hans boðað samkvæmt því sem segir um boðun félagsfunda í 4. gr.
Verkefni aðalfundar eru:

1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
2. Kynning og afgreiðsla aðildarumsókna.
3. Afgreiðsla reikninga.
4. Lagabreytingar.
5. Starfsáætlun fyrir komandi starfsár og fjárhagsáætlun.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
8. Önnur mál.
6. gr. Árgjald samtakanna skal ákveðið á aðalfundi ár hvert. Að öðru leyti fjármagna
samtökin starfsemi sína með frjálsum framlögum, styrkjum og verkefnatengdum
greiðslum.


7. gr.
Stjórn samtakanna skal skipuð fimm mönnum: formanni, gjaldkera, ritara, sem
jafnframt er varaformaður, og tveimur meðstjórnendum. Formaður skal kosinn
sérstaklega en aðrir stjórnarmenn í einu lagi og skipta þeir með sér verkum.
Varastjórn skipa tveir menn og skal hún kosin í einu lagi. Kosnir skulu tveir
skoðunarmenn og tveir til vara. Kosið skal eftir tilnefningum fullgildra aðila.
Kosning skal vera skrifleg ef tilnefningar koma fram um fleiri en nemur þeim
embættum sem kosið er til hverju sinni. Kjörgengir eru þeir sem tilnefndir eru af
hálfu fullgildra aðila á aðalfundi. Heimilt er að kjósa skoðunarmenn úr hópi
utanfélagsmanna.
8. gr. Verkefni stjórnar skulu vera:

+ Að stýra málefnum samtakanna á milli aðalfunda.
+ Vera málsvari samtakanna út á við.
+ Innheimta árgjöld aðildarfélaga.
+ Afla framlaga úr sjóðum opinberra aðila, stofnana eða fyrirtækja til þeirra verkefna sem samtökin hyggjast beita sér fyrir hverju sinni.
+ Varðveita sjóði félagsins og leggja fram endurskoðaða reikninga fyrir aðalfund.

Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Hafi sex mánuðir liðið frá síðasta
stjórnarfundi er formanni skylt að boða til fundar ef einn stjórnarmanna krefst
þess.
9. gr. Samþykktum þessum má aðeins breyta á lögmætum aðalfundi og þarf til þess 2/3
hluta greiddra atkvæða.
10. gr. Samtökunum verður einungis slitið á aðalfundi með samþykki 2/3 hluta fullgildra
aðila og skal slíkrar tillögu getið í fundarboði. Við slit samtakanna skulu eigur
þess renna til félagasamtaka sem hafa svipuð markmið.