Endurnýjaður samningur við iðnaðarráðherra

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Rögnvaldur Guðmundsson formaður Samtaka um söguferðaþjónustu (SSF) skrifuðu 25. febrúar undir samning um eflingu söguferðaþjónustu á Íslandi. Markmið samningsins er að vinna að frekari uppbyggingu og þróun söguferðaþjónustu um land allt þar sem leitast verður við að auka upplifun ferðamanna og afþreyingu sem byggir á menningararfi.

Áhersla er lögð á að byggja upp ferðaþjónustu sem lýtur að miðlun menningararfs og kynningu á sögu þjóðarinnar. Kannanir sýna að áhugi ferðamanna beinist í auknum mæli að þessum þætti sem getur orðið mikilvægur liður í aukinni dreifingu ferðamanna um landið að vetri jafnt sem sumri.

Í samningnum segir m.a. að á árinu 2016 muni Samtök um söguferðaþjónustu leggja áherslu á eftirfarandi verkefni sem m.a. teljast til forgangsmála í verkefnaáætlun Vegvísis í ferðaþjónustu:

  1. koma að gerð stefnumótandi stjórnunaráætlana fyrir ferðaþjónustuna í hverjum landshluta
  2. taka þátt í mörkun Íslands sem áfangastaðar með tilliti til menningararfs og sögu
  3. vinna að nýsköpun og vöruþróun í söguferðaþjónustu með sérstaka áherslu á „að gera söguna lifandi“ og auka upplifun ferðamanna
  4. stuðla að samvinnu við ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur um þróun söguferða og söguhringja
  5. efla markaðssetningu á söguferðaþjónustu innan lands sem utan
  6. vinna að fjölgun virkra aðila samtakanna