Íslandskort til kynningar

Góðir félagar!

Sýnileiki söguferðaþjónustunnar er að aukast gegnum Netið og leggja samtökin megináherslu á vefinn soguslodir.is / sagatrail.is til kynningar á frábærri þjónustu og eftirminnilegum sögustöðum um land allt. Hann fær nú á milli 50 og 100 heimsóknir hvern dag. Ákveðið var árið 2015 að hætta útgáfu veglegs bæklings um aðilana en leita leiða til ódýrarari útgáfu sem lokkaði ferðamenn inn á staðina en ekki síður inn á vef samtakanna til að skipuleggja sínar ferðir betur. Úr varð að hafa þetta einfalt Íslandskort með grunnupplýsingum um þá aðila innan SSF sem eru með í kynningarefni og greiða kynningargjald. Hönnun er sem fyrr í höndum Ernest Backman og félaga. Fyrsta útgáfa kemur nú í júní og geta aðilar enn bæst í hópinn og tilkynnt um þátttöku til rognvaldur@rrf.is eða skuli@skriduklaustur.is. Lokafrestur til að komast inn á kortið er 16. júní.

Námsstefna í víkingaverkefninu í október

Þá liggur fyrir að í haust taka Samtök um söguferðaþjónustu á móti námsstefnu í Follow The Vikings verkefninu. Verður hún dagana 24 – 26. október og fer fram í Reykjavík og á Vesturlandi. Búast má við 60-80 gestum sem flestir koma frá erlendum samstarfsaðilum. En það er einnig mikilvægt að við heimamenn tökum þátt. Því mælum við með að fólk áhugasamt um víkingatímann og víkingaslóðir taki frá þessa dagana í almanakinu hjá sér. Nánari upplýsingar verða sendar út á næstunni í fréttabréfi sem kemur til ykkar um leið og árgjöldin.