Fulltrúar frá Samtökum um söguferðaþjónustu tóku þátt í fyrstu námsstefnu Evrópuverkefnisins Follow the Vikings í Foteviken í Svíþjóð dagana 19.-20. nóvember. Yfirskrift námsstefnunnar var „Presenting the Vikings“. Sigrún Þormar flutti erindi um miðlun á sögunni í Reykholti. Auk hennar voru á námsstefnunni á vegum SSF: Rögnvaldur Guðmundsson, form. SSF sem jafnframt situr í stýrihóp verkefnisins, og Skúli Björn Gunnarsson, gjaldkeri SSF til að fara yfir fjármál verkefnisins með framkvæmdastjórn þess. Þá komu á námsstefnuna frá Víkingaheimum og Gudrun Publishing þau Helgi Biering og Irene Greenwood Povlsen. Margt góðra fyrirlestra var haldið og vinnustofur í einföldum leiðum til að bjóða upp á lifandi þátttöku og leiðsögn á söfnum.
Næsta námsstefna, sem einnig ber yfirskriftina „Presenting the Vikings“, verður haldin í Catoira á Spáni dagana 25.-26. maí 2016. Hér er hægt að sjá „call for papers“ fyrir þá námsstefnu og hægt að senda inn tillögu um erindi til 29. febrúar. Stjórn SSF hvetur félaga sína til að skoða hvort þeir hafi eitthvað til málanna að leggja á Spáni eða áhuga á að fara þangað. Áhugasamir eru hvattir til að setja sig í samband við Rögnvald (rognvaldur@rrf.is) eða Skúla Björn (skuli@skriduklaustur.is) en samtökin munu greiða hluta ferðakostnaðar.
Þriðja námsstefnan sem hefur sömu yfirskrift og hinar verður síðan í Trelleborg í Danmörku 21.-22. september 2016 og vill stjórn SSF leggja að sínum félagsmönnum að fjölmenna þangað, enda stutt að fara.